Search

Ímynd vs. raunveruleiki

Í huganum bjó ég til ótrúlega fallega mynd af því hvernig líf mitt átti að vera í samkomubanni og sjálfskipaðri sóttkví.


Ég ætlaði loksins að læra og stunda jóga, fara út að hlaupa með unglingunum mínum, breyta baðherberginu, taka til í kjallaranum, borða hollt, aðstoða eldri börnin með lestur og lærdóm frá skólanum, vinna á meðan yngstu strákarnir væru í hvíld eða sjálfstæðum leik, eiga innileg samtöl og samverustundir með manninum mínum, heimilið átti að vera hreint og fínt, ég ætlaði að fara úr náttfötunum á hverjum degi og ég ætlaði að hafa stjórn á skjátíma allra.


Ég hef náð þessu öllu svona 5-10% (nema útihlaupum með unglingunum- það er enn í 0).


Í raunveruleikanum reyni ég að teygja úr mér þegar ég man eftir því og næ stundum 5-10 mínútum í jóga eða þar til einhver kallar “búinn” af klósettinu, dettur, rífst, eggin byrja að sjóða, þurrkarinn fer að pípa eða einhverjum vantar aðstoð. Ég loka augunum þegar ég sit á klósettinu á hálf niðurrifnu baðherberginu og æfi mig í æðruleysi yfir að það sé ekki tilbúið- og verði það kannski ekki á næstunni. Maðurinn minn er farinn að taka til í kjallaranum og til að halda sambandinu okkar sem allra bestu hef ég ákveðið að halda fjarlægð frá honum og kjallaranum á meðan hann fer í gegnum draslið, flokkar og hendir. Það hefur aldrei verið bakað jafnmikið á heimilinu- hollt og óhollt- aðallega óhollt. Það er blessunarlega komið páskafrí þannig að það er ekki mikið heimanám og því minni pressa á því að standa sig í lærdómnum þessa dagana.

Þegar yngstu strákarnir eru í hvíld eða sjálfum sér nógir fer ég sjálf í hvíld eða að hekla, hnýta macramé, taka úr þvottavél, undirbúa mat, taka til eða hanga á facebook- það slökknar oftast bara á heilanum og ég næ engri einbeitningu í vinnu. Ég á oftast örstutt samtöl við manninn minn á hlaupum og þegar við eigum „stund milli stríða“ og ekkert af 5 börnunum þarf okkur sitjum við oftast bara í þögninni og njótum þess þessar örfáu mínútur sem það gerist. Heimilið er þannig að ef það er fínt í stofunni þá er eldhúsið í rúst- og öfugt. Ég fer úr náttfötum í þægilegustu leggins buxurnar mínar milli hádegis og kvöldmatar. Skjátími- ég ætla ekki einu sinni að ræða það.


Þannig að..... myndin sem ég hafði í huga mér er ekki alveg að ræstast.


En lífið er samt gott og við höfum það gott.


Þó að heimilislífið sé ekki nákvæmlega eins og ÉG sá fyrir mér þá er komið eitthvað jafnvægi- einhver taktur sem kemur okkur áfram.


Í stað þess að ég reyni að stjórna öllu til þess að láta mína ímynd rætast- reyni ég að skapa andrúmsloft og tækifæri fyrir alla (mig, manninn og börnin fimm) til að fá raunverulegum þörfum og löngunum sínum uppfyllt.


Við förum ekki út að hlaupa en við förum í ævintýralegar göngu- og hjóla (krossara) ferðir. Stundum bara út í garð. Við bökum saman.... eða börnin baka og ég borða. Við lesum og lærum ekki mikið í skólabókum en við hlustum á hljóðbækur, hulgeiðslur, tónlist, við dönsum og dillum okkur. Við leyfum börnunum að taka niður flísarnar á baðherberginu og fara í gegnum gamla kassa í kjallarnum sem þeim finnst miklu meira krassandi en að taka til í forstofunni eða setja í uppþvottavélina. Við spiluðum veiðimann með sokkum í stað hefðbundina spila til að virkja alla í þvottinum.


Það sem mér finnst oft óþarfa rugl og rusl hjá krökkunum er þeirra sköpun og nauðsynleg tilraunastarfsemi til að læra nýja hluti- og hafa eitthvað að gera á þessum tímum sem taka ekki síður á þau en okkur.


Ég verð bara að lækka standardinn á því að hafa heimilið allt alveg spick and span- en held þó enn í það lífsgildi mitt að heimilið sé kósý og notalegt.


Og að það sé öruggur og góður staður til að vera á.


Auk þess er eitt af lífsgildum mínum að ég sé öruggur og góður faðmur.


Og það er mér að takast þrátt fyrir ringulreið, rugl og rusl.


Það er nefninlega þannig að þegar þessum covid 19 kafla verður lokið í lífi okkar verðum við að geta horft til baka með gleði og þakklæti, en ekki eftirsjá og bugun.


Börnin okkar koma til með að muna eftir andrúmsloftinu inn á heimilinu, hegðun okkar og tilfinningunum sem flæða frekar en öðru- síst af öllu koma þau til með að muna eftir ímynd okkar af hinu fullkomna lífi- en þau munu finna vonbrigði okkar og pirring.


Hendum óraunhæfum kröfum og glansmynd út- og setjum raunveruleikann inn.


Vinnum með aðstæður eins og þær koma upp- af æðruleysi, meðvitund og virðingu.


Með þessu er ég ekki að segja að við eigum að lúffa öllum okkar persónulegu löngunum, síður en svo- en það er streituvaldandi að vera einn á móti öllum hinum í fjölskyldunni með eitthvað plan, skipulag eða ímynd.


Með fyrirfram ákveðnum hugmyndum og ímynd einnar manneskju skapast oft togstreita og ójafnvægi í öllum hópnum.


Nú eru tímarnir til að efla samvirkni í fjölskyldunni, tala saman, gera saman, vera saman.


Tímar til að æfa sig í að treysta og njóta.... þó allt sé öfugt við það sem maður sá fyrir.


Gangi ykkur vel

Bestu kveðjur

Ágústa Margrét47 views0 comments

Recent Posts

See All

8631475

©2019 by Ágústa Margrét Proudly created with Wix.com