Search

Þegar jákvæðni, bjartsýni, hvati og markmið er ekki nóg!

Fyrir framan okkur er pússl. Með 365 bitum. Og nokkur þúsund undirbitum.


Þetta er árið 2020. Fullt af verkum. Fullt af tækifærum.


Sumt þurfum við að gera, annað langar okkur að.


Sumt skipuleggjum við sjálf, öðru er hent í okkur án þess að við fáum neitt um það ráðið.


Sumu tökum við fagnandi, annað brýtur okkur niður og við skiljum ekki „af hverju“.


Mantran:


„Þú stjórnar því ekki hvað gerist,

en þú stjórnar því hvernig þú bregst við því sem gerist“


er sannarlega rétt, en að stjórna sjálfum sér: hugsunum, hegðun og viðbrögðum kemur ekkert að sjálfu sér.


Möntruna sjálfa er auðvelt að segja en að lifa eftir henni er mun erfiðara.


Við erum kyrflilega forrituð:


„Heilinn í okkur er harður diskur,

og hann er að miklu leyti úreltur og meingallaður“


Hugsanir okkar, hegðun og viðbrögð tengjast lífsfærni (life skills), heilaþroska og starfsemi, upplifun okkar í gegnum tíðina, áföllum, tengslum, erfðum, öryggi og mörgu öðru.


Maður innleiðir því ekkert nýjar möntrur, venjur og breyttan lífstíl á einni nóttu eða yfir ein áramót.


„Skyndilausnir taka mjög langan tíma,

af því að þær virka vanalega ekki“- Dr. Ross Greene.


Ég held að ég hafi nánast alla tíð, allavega frá unglings aldri, alltaf verið að reyna að bæta líf mitt og betra sjálfa mig.


Fyrri hluta ævinnar leitaði ég í skyndilausnir:


· Ég vildi léttast- og fór í „megrunarkúra“ eða tók inn grennandi vitamín.

· Ég vildi komast í form- og mætti af fullum krafti í líkamsrækt í 2 vikur og nennti svo ekki meir.

· Ég vildi minnka áfengis drykkju- og var á hnefanum eða lokaði mig af í 3 vikur þar til ég sprakk og drakk heila helgi.

· Ég vildi læra eitthvað og gera eitthvað „að viti“- og skráði mig í nám en féll um páska.

· Ég vildi vera eins og „allir hinir“- og reyndi að lifa því lífi sem að ég hélt að maður „ætti“ að lifa en þetta fyllti mig alllt bara vanmætti og minnimáttarkennd.


Viljinn og hvatinn var fyrir hendi en getan og færnin virtist ekki alltaf vera það.


Þetta leiddi til þess að ég velti því látlaust fyrir mér af hverju ég væri svona mikill klúðrari: að geta ekki byrjað á því sem er gott fyrir mig og hætt því sem er óhollt fyrir mig, eða klárað eitthvað. Að geta ekki stjórnað huga mínum, hegðunum og viðbrögðum: að ráðast í nammipoka þó ég var búin að ákveða að borða bara hollt, að fara ekki út að labba þó ég var búin að ákveða að hreyfa mig meira, að drekka mig fulla þegar ég ætlaði bara að fá mér „smá“, klúðra námi eða verkefnum sem mig langaði svo að standa mig vel í, að æsa mig út í ástvin, upplifa skapsveiflur og allskonar... sem ég ætlaði mér ekki.


Síðla árs 2012, þá 34 ára gömul, fattaði ég loksins að skyndilausnirnar og aðferðirnar sem ég var búin að reyna í tugi ára voru ekki að virka.


Skyndilausnir, að vera á hnefanum, harka að sér, fylgja öðrum og gera það sem maður heldur að maður eigi að gera- virkar ekki.


Ég fann svo vel að ég vildi og þurfti að gera breytingar, en ég vissi ekki nákvæmlega hvernig.


Hvernig endurforritar maður sig? Hvað þarf að endurforrita, hvað virkar, hvað virkar ekki, af hverju er harði diskurinn eins og hann er og hvernig vil ég að hann sé??


Þau rúmlega 7 ár sem ég hef verið að endurforrita mig með langtíma lífstílsbreytingar, hugsanir og hegðun að leiðarljósi hafa verið gríðarlega lærdómsrík.


Ég hef tekið svo mörg skref og gert svo mikið- sem virkar og virkar ekki- að það er efni í heila bók. Hér stikla ég á stóru sem ég hef kannað með ýmsum hætti:


· Hvernig virkar heilinn í mér?

· Hvað lætur mér líða vel?

· Hvað triggerar mig?

· Af hverju?

· Hverju get ég breytt?

· Hverju get ég ekki breytt?

· Hvernig manneskja er ég?

· Hvernig manneskja vil ég vera?

· Hver eru lífsgildi mín?

· Hver eru markmið mín í þessu lífi?

· Hvernig vil ég að dagurinn í dag sé, hvernig vil ég vera þegar barnabörnin og barnabarnabörnin fæðast?

· Hvað þarf ég að gera til þess að ná markmiðum mínum?


Meðal þess óteljandi sem ég hef gert þessi 7 ár er að:


· gera tilraunir í matarræði

· finna mér ný áhugamál

breyta svefnvenjum

· hlusta á hljóðbækur

· breyta heimili mínu

· innleiða nýjar uppeldis- og samskipta aðferðir

· umvefja mig fólki sem mér líður vel með

· segja nei án samviksubits

· segja já þegar það hentar mér og mínum

· minnka meðvirkni

· hætta að drekka áfengi

· hætta að nota sjampó og sápur

· fara í 6 vikna endurforritunar ferðir erlendis

· farið til sérfræðinga, sálfræðinga og markþjálfa

· prófa ýmis lyf

· fara fullorðin í 3. bekk sem áhorfandi

· upplifa vanlíðan, erfiðleika og betrun í börnunum mínum

· setja fyrirtæki sem ég átti og rak á pásu

· fara í nám

· gefa út barnablað

· auka núvitund

· lifa meira í meðvitund

· vera meira úti í náttúrunni

· fræðast um allt sem vekur áhuga minn

· hætta allri dómhörku og að þykjast vita best eða gera ráð fyrir einhverju

· treysta meira, opna mig meira, þegja meira, hlusta meira, skilja meira

· viðurkenna vanmætti mína

· efla styrkleika mína

· og fleira..... og fleira... og fleira...


Þrátt fyrir allt þetta, miklu meira og margra ára vinnu er ég langt frá því að vera „komin með´etta“- enda er þetta eilífðar verkefni.


Ég reyni að vera þolinmóð en mér finnst samt skipta svo miklu máli að endurforrita mig eins hratt og mögulegt er, til að vera sú sem ég vil vera- sérstaklega gagnvart börnunum mínum.


Þau eru minn helsti hvati.


Þeirra upplifun á mér, tengsl og samskipti mótar þau mest.


Það sem ég geri, mótar harða diskinn þeirra og ég vil að hann verði þannig að þau þurfi ekki að endurforrita sig þegar þau eru komin yfir tvítugt, þrítugt eða sjötugt.


Að hafa hvata, vilja, jákvæðni og bjartsýni er nauðsynlegt, en þegar maður er búinn að ætla sér að byrja eða hætta einhverju oft án árangurs þarf kannski eitthvað meira.


Það er fátt meira niðurrífandi en að vera alltaf að gera sitt besta en ná samt aldrei þeim árangri sem maður óskar sér.


Það þarf líka skilning, færni og getu til að taka á móti nýju öppunum og henda út þeim gömlu.

„Burt með úreltar aðferðir, venjur, hefðir og hindranir“


Markþjálfun hjálpaði mér að skilja hvað mig raunverulega langar og hvað ég þarf í lífinu til að blómstra sem best.


Markþjálfun hefur líka hjálpað mér að forgangsraða, skipuleggja og „pússla“ framtíðinni.

Markþjálfun hefur síðast en ekki síst hjálpað mér að opna huga minn og taka niður hindranir.


Markþjálfun hefur haft svo mikil og góð áhrif á líf mitt að ég ákvað að mennta mig og starfa við fagið.


Ég ætla að pússla öllu pússlinu fyrir framan mig, fyrst alla 365 aðal bitana fyrir hvern dag og hægt og rólega fylla inn undirbitana sem þýða hvert verk á hverjum degi í samræmi við lífsgildi mínum og þá manneskju sem ég vil vera og því lífi sem ég vil lifa.


Ég geri ráð fyrir að sumt mun ég geta gert- annað ekki.


Sumt mun ég sjálf skipuleggja, annað gerist bara.


Ég mun reyna að stjórna því hvernig ég bregst við öllu sem gerist, með það í huga að þegar ég missi stjórnina þá er ég ekki algjör klúðrari.


„Ekki hugsa af hverju klúðraði ég þessu, heldur

hvað er þetta að kenna mér“


Ekki berja ykkur niður fyrir að vera ekki alltaf í toppformi eða fyrir að klúðra áramótaheitinu 13. árið í röð.


Horfið á heildarmyndina- allt pússlið- allt líf ykkar, allar langanir og öll lífsgildi.


Ef við erum ekki sátt við stöðuna eins og hún er eða í eigin skinni, þá er það undir okkur sjálfum komið að forrita okkur til betri framtíðar og skyndilausnir virka bara ekki.


Gangi ykkur vel og hafið mig í huga ef ykkur vantar hvatningu og aðstoð.


115 views0 comments

Recent Posts

See All

8631475

©2019 by Ágústa Margrét Proudly created with Wix.com