Search

Hvíldu þig fyrirfram

Pabbi- sem hefur verið sjómaður í um 55 ár var vanur að segja við mig- sem var til sjós í 12 ár að ég þyrfti að hvíla mig "fyrirfram" td. sofa á útstíminu, loka augunum milli netatrossa og sofa á frívaktinni þó ég væri ekki þreytt.


Pabbi vissi að það gætu komið upp allskonar óvæntar uppákomur um borð og betra að vera úthvíldur til að takast á við þær- ekki bara hvílast EFTIR erfið verkefni, heldur líka FYRIR þau.


Við stöndum frammi fyrir alls konar óvæntum og erfiðum verkefnum á hverjum degi núna- jafnvel hverjum klukkutíma.


Heimurinn er að breytast - það er áskorun.


Störf okkar, skólar barnanna okkar, efnahagskerfið, náttúran og annað er að breytast - það er áskorun.


Heimilin eru að breytast og það er líka heljarinnar áskorun.


Það er krefjandi að vera með börnunum sínum allan sólarhringinn og það er líka krefjandi að vera í sóttkví fjarri þeim. Að mega ekki faðma ástvini sína. Að mega takmarkað hitta fjölskyldu, vini og vinnufélaga, upplifa takmörkun á þjónustu og svo framvegis.


Það er aukið álag allsstaðar, og ofan á það bætast áhyggjur af því hvað verður.


Allt þetta er krefjandi og besta leiðin til að takast á við krefjandi verkefni er að vera undirbúin.


Og hvernig getum við undirbúið okkur?


Með því að hvíla okkur fyrirfram og safna orku.


Ég er mjög meðvituð um hvað rænir mig orkunni- hvað tæmir bollann minn og hvernig ég fylli hann aftur. Það hjálpar mér í að halda mér afslappaðri, þolinmóðri, í jafnvægi og heilli (reyndar teikna ég reglulega bolla og skrifa niður hvað tæmir hann og hvað fyllir hann)


Hvíld er ekki aðeins að sofa eða leggjast með lokuð augu.


Hvíld er líka það sem gefur okkur hugarró- sérstaklega frá áhyggjum og kvíða.


Og með hugarró kemur orka.


Hver og ein/n verður að fara sínar leiðir og finna út hvað tæmir þau og hvað fyllir þau.


Ég fylli bollann minn td. með því að:


 • tala við góða vinkonu eða manninn minn

 • leika mér við, eða nálægt, börnunum mínum

 • vera í náttúru og stunda útivist

 • búa til eitthvað: prjóna, hekla, hnýta og skapa

 • læra eitthvað nýtt- prófa eitthvað nýtt

 • hlusta á podcast og hljóðbækur

 • skrifa hugsanir mínar niður

 • borða góðan og hreinan mat

 • hlusta á tónlist og dilla mér

 • horfa í fyndin myndbönd og hlægja af óförum annarra

 • Svefn og hvíld- leyfa mér að gera "ekkert" ef mig langar


Þannig er ég með orku til að takast á við það sem tæmir mig:


 • áhyggjur, aukið álag og áreiti

 • suð og óskir um eitthvað sem ég get ekki veitt

 • að vera of mikið ein í eigin huga- segja ekki áhyggjur mínar upphátt

 • leiðinleg samskipti

 • systkyna erjur- rifrildi, þrætur og leiðindi milli barnanna minna

 • neikvæðar fréttir

 • að geta ekki unnið í verkefnum sem mig langar eða þarf að gera

 • að finna ekki eitthvað td. hleðslutæki fyrir símann

 • kröfur sem ég eða aðrir setja á mig sem ég er ekki fær um að veita

 • hraði, læti og ringulreið


Ég veit að ef ég geri það sem gefur mér orku eins mikið og mögulegt, þá þarf meira til að raska ró minni og slá mig út af laginu- gera mig stressaða, pirraða, óþolinmóða og leiðinlega.


Ég fór ekki alltaf eftir því sem pabbi sagði mér.


Ég var of "upptekin" til að hvíla mig- ætlaði bara að "gera það seinna".


En ef maður gefur sér ekki tíma til að hvílast- mun líkaminn sjá til þess.


Og minn líkami sagði mér það svo sannarlega í október 2012, þegar bollinn minn var orðinn svo gal tómur að ég hafði ekkert til að keyra mig áfram. Ég krassaði, það var ógeðslega erfitt og því reyni ég nú að hlusta á líkamann..... og pabba... og hvíla mig fyrirfram.


Raunveruleikinn nú er sá að við vitum ekki hvenær eða jafnvel hvort allt verði „eðlilegt“ aftur.


Nú er því alls ekki rétti tíminn til að harka af sér, tæma tankinn, og jafnvel alla vara tankana og ætla að hvíla sig "seinna".


Við þurfum að vera í toppformi til að takast á við hvert augnablik og verkefnin stór og smá- hvort sem það er heimsfaraldur eða grátkast 3 ára barns sem fær ekki að heimasækja ömmu- eða réttan lit á glasi.


Og höfum í huga að fólkið í kringum okkur- LÍKA BÖRN OG UNGLINGAR- eru með áhyggjur og annað sem tæmir þeirra tank. Þeim hefur verið kippt úr skólum og tómstundum, mega ekki hitta vini sína, mega ekki stunda félagslíf, þau upplifa okkar áhyggjur, heyra fréttir sem hræða þau og þau skilja ekki- ekki frekar en við.


Þegar við- eða börnin okkar- bregðumst við af óþolinmæði, pirring og leiðindum er það merki um tóman tank. Og hvort þurfum við þá meira áreiti, auknar kröfur eða leiðindi sem stela enn meiri orku eða faðmlag, skilning og samkennd sem gefa orku.


Höfum þetta í huga.


Þú stjórnar ekki því sem gerist- en þú stjórnar því hvað þú gerir til að tækla betur það sem gerist.


Hvað tæmir tankinn þinn og hvað fyllir hann?11 views0 comments

Recent Posts

See All

8631475

©2019 by Ágústa Margrét Proudly created with Wix.com